Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 623  —  447. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, (skil ársreikninga).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „2. gr. laga um endurskoðendur, nr. 79/2008“ í fyrri málsgrein kemur: 3. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 79/2008, um endurskoðendur“ í seinni málsgrein kemur: V. kafla laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 121. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins ,,átta“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sex.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef stjórn félags eða framkvæmdastjóri þess sækir þing getur héraðsdómari orðið við beiðni félagsins um að fresta meðferð kröfunnar til allt að tveggja mánaða.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Berist beiðni þar að lútandi er ársreikningaskrá heimilt að fella niður allar álagðar stjórnvaldssektir skv. 1.–6. mgr. 120. gr. í kjölfar móttöku:
                  1.      hlutafélagaskrár á skriflegri yfirlýsingu hluthafa í einkahlutafélagi um að allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar skuldir félags hafi verið greiddar og að félaginu verði slitið skv. 83. gr. a laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994,
                  2.      tilkynningar skilanefndar til hlutafélagaskrár um slit einkahlutafélags skv. 2. mgr. 91. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994,
                  3.      yfirlýsingar um afmáningu útibús erlends einkahlutafélags úr hlutafélagaskrá í samræmi við XVI. kafla laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994,
                  4.      tilkynningar skilanefndar til hlutafélagaskrár um slit hlutafélags eða samlagshlutafélags skv. 2. mgr. 116. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995,
                  5.      yfirlýsingar um afmáningu útibús erlends hlutafélags úr hlutafélagaskrá í samræmi við XVI. kafla laga um hlutafélög, nr. 2/1995,
                  6.      firmaskrár á tilkynningu um slit sameignarfélags skv. 42. gr. laga um sameignarfélög, nr. 50/2007,
                  7.      sjálfseignarstofnanaskrár á yfirlýsingu um slit sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri sbr. 36. gr. laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999,
                  8.      samvinnufélagaskrár á yfirlýsingu um slit samvinnufélags í samræmi við 2. mgr. 67. gr. laga um samvinnufélög, nr. 22/1991 eða
                  9.      fyrirtækjaskrár á yfirlýsingu félagsmanna um slit samlagsfélags.
                      Heimild ársreikningaskrár til að fella niður álagðar stjórnvaldssektir er háð því skilyrði að ársreikningi félags hafi verið skilað til ársreikningaskrár í samræmi við ákvæði laganna.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 1. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XII. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, þar sem fjallað er um skipti á félögum hafi þau ekki skilað ársreikningi eða samstæðureikningi eða þegar ársreikningaskrá kemst að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi uppfylli ekki ákvæði laganna. Einnig er í frumvarpinu lögð til breyting á tilvísun í lögunum til laga um endurskoðendur en þann 1. janúar 2020 taka gildi ný lög um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til reglur sem ætlað er að skýra nánar þau tilvik þegar ársreikningaskrá krefur um skipti á félagi á grundvelli 121. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, þegar ársreikningi hefur ekki verið skilað innan réttra fresta eða þegar ársreikningi hefur verið skilað með ófullnægjandi hætti.
    Þá þykir rétt að veita félögum færi á að bregðast við nýjum reglum og nýrri lagaframkvæmd, með því að gefa þeim tækifæri á að bæta úr skilum sínum. Er því lagt til að ársreikningaskrá verði gert heimilt að fella niður stjórnvaldssektir vegna seinna skila samhliða slitum félaga eins og nánar er skýrt í umfjöllun um einstakar greinar frumvarpsins.
    Ákvæðum XII. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, var breytt með lögum nr. 73/2106. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 73/2016 var áréttað mikilvægi þess að ársreikningar félaga væru skýrir og gæfu glögga mynd af stöðu félaga. Hugtakið árleg reikningsskil hefur ekki verið skilgreint í lögum en með árlegum reikningsskilum er átt við ársreikninga og samstæðureikninga ásamt skýrslum stjórnar og áritun endurskoðanda eða staðfestingu skoðunarmanns sem samin eru samkvæmt lögum nr. 3/2006. Árleg reikningsskil eru samin fyrir notendur sem ekki eru í þeirri aðstöðu að geta krafið viðkomandi félag um fjárhagslegar upplýsingar sem sniðnar eru að þeirra þörfum. Tilgangur með gerð árlegra reikningsskila er að veita fjárhagslegar upplýsingar um viðkomandi félag. Upplýsingarnar nýtast núverandi og mögulegum fjárfestum, lánveitendum og lánardrottnum við að taka ákvarðanir um hvort stýra eigi fjármagni til, halda í eða stýra fjármagni frá viðkomandi félagi og fyrir fjárfesta til að leggja mat á frammistöðu stjórnenda félagsins. Með árlegum reikningsskilum er ólíkum markmiðum fylgt eftir þar sem reikningsskil hefðu ekki einungis upplýsingagildi fyrir fjárfesta á fjármagnsmörkuðum heldur eru þar einnig rakin fyrri viðskipti sem eru til þess fallin að efla stjórnarhætti fyrirtækja.
    Með frumvarpi til laga nr. 73/2016 var megináhersla lögð á innleiðingu tilskipunar nr. 2013/34/ESB um árleg reikningsskil og einföldun fyrir atvinnulífið þannig að álag vegna stjórnsýslukrafna væri í samræmi við stærð og umfang félaga. Samhliða því voru leiddar í lög reglur sem ætlað var að draga úr stjórnsýslubyrðum og íþyngjandi kröfum til minni félaga. Kom fram í frumvarpinu að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra ættu um fjögur af hverjum fimm félögum á landinu að geta nýtt sér einfaldari skil á ársreikningi byggðum á skattframtali þar sem ríkisskattstjóri sæi um gerð reikningsins og ekki væri gerð krafa um að ársreikningurinn væri yfirfarinn af skoðunarmanni eða endurskoðaður af endurskoðanda. Þar með myndi sparast vinna við að leggja sérstaklega fram ársreikning til ársreikningaskrár sem og kostnaður vegna yfirferðar þriðja aðila, þótt ekki væri hróflað við þeirri reglu hlutafélagaréttar að ársreikning þurfi ávallt að leggja fram á aðalfundi félags. Var talið að breytt fyrirkomulag og hertari viðurlög við að skila ekki ársreikningum myndi stuðla að betri skilum á ársreikningum til ársreikningaskrár en upplýsingar í ársreikningaskrá væru grundvöllur fyrir heilbrigt og gagnsætt viðskiptalíf í landinu. Hafa skil til ársreikningaskrár batnað verulega í kjölfar framangreindra breytinga. Má hér benda á hvernig skil á ársreikningum til opinberrar birtingar hafa þróast. Á árinu 2007, sem var síðasta ár áður en ársreikningaskrá fékk heimild til að leggja á sektir, höfðu aðeins 15,4% félaga skilað ársreikningi í réttu horfi innan átta mánaða frá lokum reikningsárs og 59,6% innan árs frá því að reikningsári lauk. Vakin er athygli á að hlutafélögum er skylt að halda aðalfund innan átta mánaða frá lokum reikningsárs og skila reikningi til opinberrar birtingar. Skil bötnuðu á árinu 2008 en þá fór hlutfallið upp í 17,6% innan átta mánaða frá lokum reikningsárs og 68,0% innan árs frá því að reikningsári lauk. Fyrir reikningsárið 2015 hækkaði hlutfallið upp í 33,4% innan átta mánaða frá lokum reikningsárs og 84,8% innan árs frá því að reikningsári lauk.
    Skil á ársreikningum hafa batnað verulega eftir að viðurlög voru hert með lagabreytingu árið 2016. Eins og eftirfarandi tafla ber með sér hafa skil færst framar á árið eftir að álagning sekta hófst fyrr en tímanleg skil eru grundvöllur þess að upplýsingar úr reikningsskilum nýtist atvinnulífinu.

Reikningsár 2007 2008 2015 2016 2017
Skilaskyld félög 30.308 31.330 35.895 38.130 39.464
Skil fyrir 1/9 4.664 5.510 11.988 18.146 24.112
Skil fyrir 31/12 18.070 21.304 30.438 33.045 34.739
Skil fyrir 1/9 15,4% 17,6% 33,4% 47,6% 61,1%
Skil fyrir 31/12 59,6% 68,0% 84,8% 86,7% 88,0%

    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra var ætlað að setja nánari reglur um framkvæmd skipta þeirra félaga sem ekki skiluðu ársreikningi eða ársreikningi sem ekki uppfyllir skilyrði laganna. Við undirbúning setningar reglnanna komu í ljós atriði sem skýra þurfti nánar um aðdraganda skipta skv. 121. gr. laga nr. 3/2006. Samkvæmt upplýsingum frá ársreikningaskrá fengu 4.557 félög sekt vegna vanskila á ársreikningi fyrir reikningsárið 2016. Þar af hefur 1.631 félag (1.573 einkahlutafélög) enn ekki staðið skil á ársreikningi og eru enn skráð í fyrirtækjaskrá og falla því undir ákvæði 1. mgr. 121. gr. laga nr. 3/2006.
    Óljóst er hverjar ástæður eru fyrir því að félögin hafa ekki skilað ársreikningi en þau félög sem ekki hafa skilað ársreikningi samkvæmt framansögðu falla undir slitaákvæði 121. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006. Ekki er hægt að útiloka að þar sé um að kenna vanþekkingu á breyttu regluumhverfi og hertum viðurlögum ef félag skilar ekki ársreikningi innan tilsettra tímamarka. Í ljósi þess fjölda félaga sem hér um ræðir, og ekki síst þess kostnaðar sem hljótast myndi af kröfu um skipti á þeim eftir ákvæðum laganna, hefur verið talið rétt að gefa félögum tækifæri til þess að koma ársreikningaskilum sínum í lag samhliða því að rekstri félaganna verði slitið og fullnægjandi ársreikningum verði skilað. Í því samhengi er þó rétt að hafa í huga að innheimtumaður ríkissjóðs setur félög í þrot þegar kröfur ríkissjóðs á hendur þeim ná tiltekinni fjárhæð en sú fjárhæð er lægri en innheimtumaður ríkissjóðs miðar almennt við í þeim efnum. Er því að finna nýtt ákvæði í frumvarpinu þar sem gefinn er kostur á að slíta starfsemi félaga og skila fullnægjandi ársreikningi gegn því að stjórnsýslusektir sem lagðar hafa verið á viðkomandi félög þar sem stjórnendur hafa vanrækt skyldur sínar varðandi skil á ársreikningum til opinberrar birtingar verði felldar niður. Þessi heimild er þó háð því að beiðni berist um það til ársreikningaskrár og að félagi sé sannarlega slitið í kjölfarið.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagðar eru til tvær meginbreytingar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir breytingum á frestum vegna yfirvofandi kröfu um skipti á grundvelli 121. gr. laga um ársreikninga. Í því skyni eru lagðar til breytingar á þeim lokafresti sem félögum gefst til að setja fram ársreikning í réttu formi og nánari reglur um meðferð þeirrar kröfu fyrir héraðsdómi. Þá er í öðru lagi gerð tillaga um að ársreikningaskrá verði heimilað að fella niður álagðar stjórnvaldssektir á grundvelli 120. gr. laganna samhliða slitum á viðkomandi félagi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Þær breytingar sem lagðar eru til stangast ekki á við ákvæði stjórnarskrárinnar eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, meðal annars á grundvelli samskipta við ríkisskattstjóra og ársreikningaskrá og að höfðu samráði við Ásu Ólafsdóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
    Áform um lagasetninguna voru kynnt ráðuneytum í innra samráði Stjórnarráðsins, sem og almenningi og hagsmunaaðilum í opinni samráðsgátt stjórnvalda dagana 4.–18. júlí 2019, mál nr. S-172/2019. Tvær umsagnir bárust um áformin. Í umsögnunum var annars vegar að finna athugasemdir sem lúta að fresti til að skila ársreikningi til opinberrar birtingar og að sá frestur verði samræmdur fresti til að skila skattframtali. Hins vegar var að finna ábendingar um að mikilvægt væri að taka til skoðunar ákvæði 65. og 66. gr. laga um ársreikninga.
    Drög að frumvarpinu voru kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í opinni samráðsgátt stjórnvalda dagana 19.–26. nóvember 2019, mál nr. S-268/2019. Engar athugasemdir bárust við frumvarpsdrögin.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu eru skýrðar nánar reglur laga um ársreikninga, nr. 3/2006. Lagt er til að ársreikningaskrá verði heimilað að fella niður stjórnvaldssektir þeirra félaga sem senda yfirlýsingu um slit til fyrirtækjaskrár og er sannarlega slitið. Sú heimild er ætíð háð því skilyrði að félagið hafi skilað ársreikningi í réttu horfi. Því er gert ráð fyrir að ársreikningaskrá verði heimilað að fella niður álagðar sektir vegna vanskila á ársreikningum samhliða því að félögum verði slitið og fullnægjandi ársreikningi skilað. Óvíst er hversu háar sektir verði felldar niður á grundvelli þessarar heimildar en ólíklegt verður að teljast að framangreindar sektir myndu innheimtast.
    Verði frumvarp óbreytt að lögum verða fjárhagsáhrif á ríkissjóð engin.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. eru lagðar til breytingar á tilvísunum til laga um endurskoðendur hvað varðar hæfisskilyrði og óhæðisskilyrði endurskoðenda. Breytingin leiðir af gildistöku nýrra laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, hinn 1. janúar 2020.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. 121. gr. laga um ársreikningar, nr. 3/2006, er mælt fyrir um að hafi félag ekki skilað ársreikningi innan nánar tilgreinds frests, eða ársreikningi hafi ekki verið skilað í réttu horfi, skuli ársreikningaskrá gera kröfu um að félag verði tekið til skipta. Um ástæður þess var fjallað í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 73/2016, þar sem fram kom að það þætti óviðunandi að félög gætu brotið gegn ákvæðum laganna í langan tíma áður en gripið væri til aðgerða. Þá væri það liður í einföldun málsmeðferðar að fela þeim aðila sem hefur eftirlit með skilum ársreikninga að krefjast skipta á búi félags. Jafnframt var lagt til að ráðherra setti í reglugerð nánari ákvæði um ferli slíkra mála hjá ársreikningaskrá.
    Í a-lið 2. gr. er lagt til að sá frestur sem ársreikningaskrá hefur til að krefjast skipta verði færður úr átta mánuðum í sex mánuði. Hefur þá verið litið til þess að skv. b-lið 2. gr. er lagt til að dómari geti veitt allt að tveggja mánaða frest við meðferð skiptakröfunnar fyrir héraðsdómi. Markmið með þessum breytingum er fyrst og fremst að gera úrræðið skilvirkara. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að skv. 109. gr. laga um ársreikninga hefur félag allt að átta mánuði eftir lok hvers reikningsárs til að skila ársreikningi í réttu horfi. Ársreikningaskrá metur í hverju tilviki fyrir sig hvort ársreikningi hafi verið skilað í réttu horfi innan þess frests. Í fyrirhugaðri 1. mgr. 121. gr. laganna er nú gert ráð fyrir að ársreikningaskrá geti krafist skipta ef sex mánuðir eru liðnir frá þeim fresti sem um getur í 109. gr. laganna, ef frestur til að skila ársreikningi er liðinn eða frá þeim tíma að ársreikningaskrá hefur komist að þeirri niðurstöðu að skýringar eða upplýsingar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar hafi ekki verið fullnægjandi. Á því sex mánaða tímabili sem um er rætt í tillögu að breytingu á 1. mgr. 121. gr. laganna er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að félag geti skilað inn ófullnægjandi ársreikningi og þar með fengið nýjan sex mánaða frest, heldur verður félagið að skila inn fullnægjandi ársreikningi til ársreikningaskrár á framangreindu tímamarki.
    Eins og fram kemur í 121. gr. laganna leggur ársreikningaskrá fram beiðni um skipti á félagi þegar svo háttar til að félag hefur ekki sinnt þeirri skyldu að skila ársreikningi á réttum tíma eða í réttu horfi. Í 2. mgr. 121. gr. kemur fram að hafi héraðsdómara borist k
rafa um skipti skv. 1. mgr. 121. gr. skuli hann fara með hana eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, um meðferð kröfu lánardrottins um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta.
    Í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, eru veittir skammir frestir við meðferð kröfu um gjaldþrotaskipti. Í 3. mgr. 70. gr. laganna er ekki gert ráð fyrir að dómari geti orðið við sameiginlegri beiðni skuldara og lánardrottins um frestun á meðferð kröfunnar í lengri tíma en samtals einn mánuð ef skuldari er félag. Sá tími kann að vera knappur þegar um skiptabeiðni skv. 1. mgr. 121. gr. laga um ársreikninga er að ræða. Er því lagt til að ef stjórn félags eða framkvæmdastjóri þess sækir þing við meðferð kröfu ársreikningaskrár um skipti, geti héraðsdómari orðið við beiðni stjórnar um að fresta meðferð kröfunnar til allt að tveggja mánaða. Þykir rétt að gefa félagi þar með lokafrest til þess að koma ársreikningaskilum sínum í fullnægjandi horf, áður en skiptakrafan verður tekin til meðferðar. Er þá gert ráð fyrir að ársreikningaskrá geti afturkallað skiptabeiðni, skili félag ársreikningi í fullnægjandi horfi innan tveggja mánaða og uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, að öðru leyti. Er dómara falið að meta hvort slíkur frestur verði veittur, með hliðsjón af ráðagerð fyrirsvarsmanna félags hverju sinni. Auk þess fer ársreikningaskrá ávallt með forræði kröfunnar og er ekki gert ráð fyrir að skiptabeiðni verði afturkölluð fyrr en ársreikningi hefur verið skilað í fullnægjandi horfi innan frestsins og greiddar hafi verið álagðar stjórnvaldssektir ársreikningaskrár skv. 120. gr. laganna og áfallinn kostnaður við að koma kröfu um skipti á framfæri.
    Félagi á því að hafa gefist nægt ráðrúm til að skila ársreikning í fullnægjandi horfi, sé litið til þeirra fresta sem fram koma í 109. gr. og eftir breytinguna sem lögð er til á 1. mgr. 121. gr. laganna. Kröfur laganna eru skýrar og byggjast á ríkum almannahagsmunum. Ekki er gert ráð fyrir því að frekari tilkynningar séu sendar af hálfu ársreikningaskrár sem skilyrði þess að krafist verði skipta, þótt ársreikningaskrá geti sent almenna tilkynningu í aðdraganda þess að krafist er skipta á félagi. Hins vegar geta ýmsar réttmætar ástæður verið fyrir því að félag hafi ekki orðið við þessari kröfu. Þykir því rétt að gefa félagi í þeirri stöðu aukið ráðrúm til að skila ársreikningi í fullnægjandi horfi eftir að svo er komið að krafist hefur verið skipta á því í samræmi við reglur laganna, eftir atvikum með því að leita til sérfræðinga á sviði endurskoðunar.
    Í c-lið 2. gr. er lagt til að ársreikningaskrá verði veitt varanleg heimild til að færa álagðar stjórnvaldssektir að fullu niður. Skilyrði þess er þá að félagi hafi verið slitið og ársreikningum skilað og er þá gert ráð fyrir að stjórn félags geti óskað sérstaklega eftir niðurfellingu stjórnsýslusektarinnar hjá ársreikningaskrá, samhliða tilkynningu til fyrirtækjaskrár um slit félags, eins og nánari er rakið í ákvæðinu. Samtals á 1.631 félag eftir að skila ársreikningi vegna ársins 2016 og 1668 félag vegna ársins 2017. Til viðbótar þessu 1.631 félagi eru 768 félög sem hafa enn ekki skilað ársreikningi 2016 en eru nú afskráð (hér falla þó ekki undir afskráð félög skv. 83 gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994) eða úrskurðuð gjaldþrota. Þetta teljast með öllu óásættanleg skil til opinberra aðila.
    Margar ástæður kunna að vera fyrir því að félag hafi ekki skilað ársreikningi í samræmi við reglur laganna. Í einhverjum tilvikum kann að vera um að ræða félög sem hafa takmarkaða eða jafnvel enga starfsemi með höndum. Í einhverjum tilvikum er jafnvel um að ræða vanþekkingu á auknum kröfum um skil ársreikninga í samræmi við reglur laga nr. 3/2006, en með lögum nr. 73/2016 sem breyttu lögum um ársreikninga voru gerðar strangari kröfur til félaga um skil ársreikninga í fullnægjandi horfi og viðurlög við vanskilum hert. Kæmi til skipta á þeim félögum og þar miðað við að inna þyrfti af hendi skiptatryggingu að fjárhæð kr. 350.000 vegna hvers félags, næmi skiptatrygging sem greiða þyrfti úr ríkissjóði samtals að lágmarki kr. 583.800.000 vegna ársins 2017. Þá er gert ráð fyrir að engar eignir séu til staðar í félögum sem gætu kostað skiptin að einhverju leyti en sú kynni hins vegar að vera reyndin í sumum félaganna. Í því sambandi verður þó að hafa í huga að innheimtumaður ríkissjóðs óskar eftir því að bú félaga verði tekin til gjaldþrotaskipta þegar kröfur ríkissjóðs ná tiltekinni fjárhæð. Því fellur kostnaður við gjaldþrotaskipti félaga nú þegar að miklu leyti á ríkissjóð.
    Í einhverjum tilvikum er um að ræða félög þar sem álögð sekt ársreikningaskrár er hæsta skuld félaganna og í reynd eina hindrun þess að félögum verði slitið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eigendur eða hluthafar félaga geti slitið félögum og í kjölfarið verði felldar niður álagðar sektir ársreikningaskrár í kjölfar beiðni til ársreikningaskrár. Í því ljósi þykir rétt að heimila niðurfellingu álagðra stjórnsýslusekta þeirra félaga sem sannarlega verður slitið. Þessi heimild er alfarið háð því skilyrði að félögin hafi áður skilað fullnægjandi ársreikningi eða eftir atvikum samstæðureikningi til ársreikningaskrár. Fyrirséð er að langmest muni reyna á slit eftir 83. gr. a laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, en af 1.631 félagi sem hefur ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2016 eru 1.573 einkahlutafélög. Auk þess hafa 26 samlagsfélög, 13 hlutafélög, 6 útibú erlends félags, 5 sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, 4 samlagshlutafélög, 3 samvinnufélög og 1 sameignarfélag enn ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2016. Sambærilegar tölur vegna ársins 2017 eru þær að af þeim 1.668 félögum sem ekki hafa skilað ársreikningi eru 1.563 einkahlutafélög, 53 samlagsfélög, 18 hlutafélög, 6 samlagshlutafélög, 5 útibú erlends félags, 4 sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, 4 samlagshlutafélög, 4 samvinnufélög og 14 sameignarfélög. Þykir rétt að gefa eigendum og hluthöfum allra þessara félagaforma möguleika á að slíta þeim eftir þeim reglum sem um þau gilda eins og nánar er lýst í ákvæðinu.
    Beina þarf skriflegri beiðni til ársreikningaskrár um niðurfellingu álagðra stjórnsýslusekta samhliða móttöku hlutafélagaskrár, firmaskrár, sjálfseignarstofnanaskrár, samvinnufélagaskrár eða fyrirtækjaskrár á staðfestingu á slitum félags. Álögð stjórnsýslusekt verður ekki felld niður fyrr en í kjölfar móttöku yfirlýsingar um slit félags. Af því leiðir að endanleg afskráning félags úr hlutafélagaskrá, firmaskrá, sjálfseignarstofnanaskrá, samvinnufélagaskrá og fyrirtækjaskrá fer ekki fram fyrr en í kjölfar staðfestingar ársreikningaskrár um að álagðar stjórnvaldssektir hafi verið felldar niður. Má sem dæmi nefna móttöku á skriflegri yfirlýsingu hluthafa í einkahlutafélagi um að allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar skuldir félags hafi verið greiddar og félaginu slitið eftir 83. gr. a laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994. Er þá undanskilið að þar falli undir allar aðrar skuldir en álögð stjórnvaldssekt ársreikningaskrár, enda verður hún felld niður að lokinni móttöku þeirrar yfirlýsingar sem fjallað er um í 83. gr. a laga nr. 138/1994. Eftir að slík tilkynning hefur borist hlutafélagaskrá fellir ársreikningaskrá niður álagðar stjórnsýslusekt eftir ákvæðum 1.–6. mgr. 120. gr. laganna. Þar falla undir allar stjórnvaldssektir sem hafa verið lagðar á félag vegna vanskila á ársreikningi.

Um 3. gr.

    Lagt er til að 2. gr. taki þegar gildi en að 1. gr. taki gildi 1. janúar 2020. Breytingin sem lögð er til í 1. gr. leiðir af gildistöku nýrra laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, sem taka eiga gildi 1. janúar 2020.